Monday, 13 August 2012

7. ágúst (þriðjudagur)

Fyrsta ganga með hinum gönguklúbbnum. Fórum og hittum Gemmu – sem er önnur kona sem HÁP setti sig í samband við í gegnum alnetið ágæta áður en við lögðum í ´ann í þeim tilgangi að finna göngufélaga. Hittum Gemmu heima hjá henni á Dallas Rd og fórum í bílinn með henni. Hún pikkaði upp 2 kellur – Carol og Pauline (Pauline minnti skemmtilega mikið á gömlu kelluna í Aðþrengdum eiginkonum). Hittum svo restina af göngufélögunum á bílastæði þar sem sameinast var í bíla. Alls vorum við 11 í hópnum. Afar skemmtilegur hópur. Við talsverðum sjónarmun yngri en aðrir. Og eins og við vissum – og var annar tilgangur með þessu hjá okkur – þá gafst okkur gott tækifæri til að æfa enskuna okkar. 

Fórum á eitt af fjölmörgum verndarsvæðum hér um slóðir eða Thetis Lake Regional Park Frekar létt ganga og við hjónakornin syntum í Upper Thetis. Svalandi og grænt. Ætlum að hitta þennan hóp aftur eftir viku. Með í ferð voru þrír karlar. Phil, sem er sálfræðingur sem er hættur störfum og tiltölulega nýfluttur hingað. Hann er skemmtilegur og þykir afskaplega líkur Dustin Hofman, bæði í útliti og háttum. Svo var það Jim. Nokkuð vel roskinn en ótrúlega röskur. Hann og kona hans sem er að íslenskum ættum heimsóttu Ísland 2007. Og svo Barry – hann talaði mikið og var alveg ágætur. 

Konurnar voru líka skemmtilegar. Man ekki öll nöfnin, ein heitir Gwen fædd í Manchester á Englandi en hefur búið hér frá því hún fór að heiman.  Hún lauk nýlega háskólagráðu í miðaldarfræðum og var ágætlega að sér í Íslendingasögum, sérílagi Egilssögu. Þetta var ca 4 tíma ganga + ferðir. 

Við tókum því svo rólega þegar heim kom. HÁP svaf í sófanum en HS las krimma úti í garði. 

Reffilegur með nýja hattinn.

Nestispása við Upper Thetis.

Nýju vinirnir okkar: Gemma, Gwen og Phil.

Órakað tré.

Fegrunarblundur.

No comments:

Post a Comment