Tuesday, 14 August 2012

11. ágúst (laugardagur)


Dagurinn tekinn snemma þar sem planið var að hitta Mary og nokkra göngugarpa við Sooke Potholes og finna réttu leiðina að vatninu. Eftir að hafa stúderað leiðina á google maps og gert leiðarlýsingu var brunað úr bænum og auðvitað vorum við fyrst á svæðið.  Ekki leið á löngu þar til aðrir komu á svæðið, en þarna hittum við Ryan (sem Hrafnkell kallar alltaf Fred) röskan göngugarp með gps, Larry kana sem býr í Arizona á veturnar en í Victoria á sumrin og loks hin norsk ættaða Peter sem Fríða stökk á og faðmaði (fór aldrei þessu vant mannavillt og hélt að þetta væri Gerry).  Peter kallinn varð hálf ruglaður á þessum móttökum og talaði við okkur á norsku það sem eftir lifði dags...

Gangan var nú léttari en fyrri daginn þar sem hitinn var ekki nema 23° eða svo.  Fundum rétta slóðann enn könnuðum þann sem við römbuðum á áður til hlítar. Við erum eiginlega að verða sérfræðingar á þessum slóðum.  Eftir röska tveggja tíma göngu var það við Grassy Lake – ljómandi huggulegt fjallavant þar sem vatnaliljurnar fögnuðu okkur með blómskrúð og silungurinn heilsaði með stökki.  Við vatnið rákumst við á vinkonu okkar hana Gwen og aðra göngugarpa sem höfðu valið einföldu leiðina að vatninu. Gwen bauð okkur heim til sín í garðveislu daginn eftir.
Í göngunni rákumst við á snák, Mary steig á vespubú og Hrafnkell var stunginn í hásinina af vespu. Auk þessa var mikið spáð og spekúlerað í þann dýraskít sem á vegi okkar varð. Ryan (eða Fred) greindi skítinn eftir stærð, lögun, þéttleika og innihaldi.  Mikil fræði á bak við þetta en við rákumst á skít eftir úlfa og birni.

Að göngunni lokinni var ákváðum við að fara í lengri bíltúr eftir ráðleggingar Mary.  Ókum eftir suðvesturströndinni sem er gríðarlega falleg. Keyptum nesti í næsta kaupfélagi og fengum okkur magafylli á rekaviðardrumbi við ströndina áður en ferðalagði hófst fyrir alvöru. Við stoppuðum svo fyrst á Kínaströndinni sem er öll hin huggulegasta, þar var fólk að busla og sóla sig.  Þar sem ferðalagið var rétt að byrja fékk Fríða ekki að dvelja lengi á þessari strönd (samt alveg í ca 5 mínútur).  Keyrðu svo eins langt og þjóðvegurinn náði að Juan De Fuca Provincial Park. Þegar þangað var komið beið okkur þokumistur og heldur dimmdi yfir svip frúarinnar við þá sjón (enda var búið að lofa henni kósíheit á strönd).  Við gengum engu að síður skemmtilegan hring þarna um dimman skóginn, vogskorna og klettótta ströndina.  Við salernin voru leiðbeiningar um hvernig eigi að bera sig mæti maður birni eða fjallaljóni. Mary hafði frætt okkur á að þarna væru helstu líkurnar að sjá birni.  Röltandi í mistrinu, heyrandi alls kyns brak í skóginum var okkur eiginlega hætt að lítast almennilega á blikuna og vorum hálf feginn að komast óétin aftur í bílinn. Enda vorum við ekki búinn að aka lengi þegar við sáum tvo birni í ætisleit.

Nú lá leiðinn yfir fjöllin að Cowichian Lake sem er virkilega skemmtileg leið um ótrúlega mikla skóga. Ekið var sem leið lá í Duncan þar sem við fundum loks stað til að næra okkur á Doogie Family Resturant.  Dæmigerð vegasjoppa og maturinn svona lala.  Auðvitað vorum við spurð hvaðan við værum og eftir að hafa gert því skil komu hjónin á næsta borði til okkar og sögðu tengdason sinn vera af íslenskum ættum. Aðeins var grínast með íslensku nöfnin og hversu miklir tungubrjótar þau eru hér í Kananda eða eins og frúin sagði „My doughter went from a nice and simple Smith to Bergþórsson."

Á leiðinni heim frá Duncan sáum við glampa af flugeldasýningu og stjörnuhrap en ekkert tungl. Erum helst á því að tunglið hafi yfirgefið okkur.

Litast um á leiti

Við enda villuslóðans var minningarskjöldur


Blómarós og blómin við Grassy Lake

Hrafnkell og dvergarnir

China beach, sól og gullnir sandar

Þokuströndin við Juan De Fuca
Ekki hægt að segja að við höfum ekki verið vöruð við

Spúkí skógur á bjarnarslóðum


Fríða fann flóttaleiðina

Bangsi beið okkar svo á gresjunni (klikka á myndina til að sjá betur)

No comments:

Post a Comment