Friday, 10 August 2012

5. ágúst (sunnudagur)

Fyrsta gangan. Hittum Mary and Gerry Hof uppúr kl 9 og gengum með þeim á Grassy Ridge – sem er partur af Sooke Potholes Regional Park. Hittum þau á auðfundnu bílastæði og keyrðum með þeim að áfangastað. Hrafnkell hafði sett sig í samband við Mary áður en við komum hingað – fann hana og gönguklúbbinn hennar á hinum mjög svo ágæta alneti. Mary og Gerry eru hjón – hún er 55 og hann eitthvað aðeins eldri. Voru kúabændur en seldu kvótann fyrir nokkrum árum. Búa enn á bænum og ætla sér að gera um ókomna tíð. Afar skemmtileg hjón. Hún mjög mikill göngu- og útivistargarpur.  Hún er ættuð frá Póllandi og hann frá Hollandi. Þetta var n.k. könnunarleiðangur þar sem Mary ætlaði sér að finna gönguleið niður að fjallavatni, Grassy Lake, en við fundum aldrei slóðina að því. Þetta var einn heitasti dagur sumarsins – yfir 30 stiga hiti – og okkur varð ögn heitt. Mjög skemmtileg ganga þó. Skuggi hárra trjáa bjargaði okkur. Gengum talsvert í burkna-runn-lendi sem skilaði okkur allnokkrum moskítóbitum – aðallega á fótleggjum. HS hafði fundið fyrsta bitið kvöldið áður – á ökklakúlunni – sem var ekki sérlega þægilegt þegar gengið var í nýju fínu gönguskónum sem héldu vel um. Gangan tók um 4,5 tíma. Við stoppuðum svo öll og fengum okkur ís þegar niður var komið. Það var gott!

Hér má sjá kort af svæðinu sem gengið var um og já Grassy Lake sem aldrei fannst (kort).

Um kvöldið hjóluðum við í bæinn með teppi og nesti. Komum okkur vel fyrir á lóðinni fyrir framan Hotel Empress og hlustuðum á tónleika með sinfóníuhljómsveit Victoríu sem spilaði í höfninni. Þetta er árlegur viðburður hjá þeim. Mjög flott og svaka mikill mannfjöldi. Flugeldasýning í lokin. Hótel Empress ku vera víðþekkt. Og aldrei talað um það sem hótel - bara sem Empress. Og seiseijá.

Hrafnkell með Mary og Gerry Hof.
Hrafnkell og Gerry í mesta skugga sem í boði var.

Spáð og spökulerað.


Hólmfríður (t.v) og Hrafnkell (t.h.).


Hið víðfræga Empress.
 
Þinghús Bresku Kólómbíu í ljósaskiptunum.
Og svo flugeldasýningin. Takk fyrir.


No comments:

Post a Comment