Þessi dagur var skrítinn. Fullur af óhöppum en líka af
höppum og allt endaði vel. Við vöknuðum og gerðum okkur klár til að fara í
heljarinnar hjólatúr, með nesti og alles. Til stóð að hjóla niður í bæ og taka
svo strætó (með hjólin) ca 30 km út fyrir Victoria og hjóla heim. Hjólaleið sem
heitir Galloping Goose trail.
En nei... þau fínu áform urðu að engu. En við hjóluðum þó heilmikið þennan
dag...
Þannig er mál með vexti að um leið og hin lyklapassasama
Hólmfríður lokaði útihurðinni þá uppgötvaði hún að allir lyklar voru inni í
hinu rammlæsta húsi. Líka lyklarnir af bílnum. En við höfðum hjólin og
vísakort. En reynum að gera laaaaaanga sögu ögn styttri.... Þetta leit alls ekki
vel út og við vorum farin að undirbúa okkur til að klifra upp á svalirnar og
sofa þar. En heppnin lék við okkur eins og svo oft áður, þó hún hafi reynt ögn
á þolrifin. Eina vonin okkar um að komast inn var að ná í konuna sem þrífur
húsið og hefur auka lykla. Við höfðum fengið símanúmerið hennar ef eitthvað
svona myndi koma uppá – en það var vitaskuld vel geymt inni í húsinu. Við
reyndum að ná í húsráðendur (og sem betur fer var klukkan bara seinnipartur á
Íslandi) en slökkt var á símanum – en við fengum mikla hjálp frá Unni,
sameiginlegri vinkonu, til að hafa uppi á þeim. Í millitíðinni fengum við gamlar
konur í bókabúðinni til liðs við okkur og þær hjálpuðu okkur við að leita í
rafrænum og órafrænum símaskrám að
skrúbbunni, Samönthu. Það kom svo í ljós að sú ágæta kona á ekki gemsa og það
svaraði ekki heima hjá henni. Við hjóluðum því heim til hennar en enginn heima.
Nágranni hennar vissi ekki hvort hún hefði farið í burtu um helgina. Skildum
eftir miða og bönkuðum uppá á klukkutímafresti. Þess á milli hjóluðum við um, sátum
á veitingahúsum, settumst á bekki og spiluðum og létum okkur leiðast. Þegar
klukkan var að verða sex var farið að kólna verulega og búðir að fara að loka
fyrir nóttina. Þar sem við sáum allt eins frammá að sofa úti og Hólmfríður
aðeins á stuttbuxum þá var drifið í að kaupa göngubuxur á stelpuna svo henni
yrði ekki kalt og yrði síður étin af óargapöddum. Og viti menn – næst þegar við
bönkuðum uppá hjá Samönthu þá var hún akkúrat að koma út úr strætó. Hallelúja!
Það urðu miklir fagnaðarfundir (af okkar hálfu). Og heim komumst við!
No comments:
Post a Comment