Sunday, 19 August 2012

16. ágúst (fimmtudagur)


Vöknuðum eldsnemma, eða kl 6.00. Útbjuggum nesti og vorum lögð af stað í ferðalag kl 7.00. Fyrsti áfangastaður var Parkville, lítill strandbær sem er um 150 km norður af Victoria. Borðuðum nestið okkar á dásamlegri strönd með miklum sandbreiðum, enda hafði hafið fjarað langt út. Virkilega falleg fjallasýn yfir á kanadísku Klettafjöllin. Röltum aðeins um miðbæinn, fundum kaffihús sem bauð uppá fínasta kaffi. Þaðan lá leiðin niður á aðra strönd þar sem háð var alvöru sandskúlptúr keppni sem fer fram á hverju ári.  Vá!  Ótrúlega flottir skúlptúrar sem sýndir voru á afgirtu svæði. Borguðum lítilræði inn og ræddum við félagsmenn í Lions og Lionessum sem voru þarna í sjálfboðavinnu að rukka inn þennan dag og sjá til að allt færi vel fram. Innkoman fer annars vegar í verðlaunafé og hins vegar í endurbætur á leikaðstöðu fyrir börn á ströndinni. Mun færri fá að spreyta sig en vilja og allt prófessjónal skúlptúristar. Hver keppandi (einstaklingar og lið) getur notað 24 klst á 3 sólarhringum til að móta verkin sín. Sunnudaginn 19. ágúst verða sigurvegarar krýndir. Skemmtilegt konsept sem gaman væri að sjá á Ylströndinni í Reykjavík.

Áfram var haldið, nú frá ströndinni og inn til landsins. Næsta stopp var við Little Qualicum Falls Provincial Park þar sem við tókum stuttan göngutúr og skoðuðum tvo fossa. Skemmtileg á og gil en.... fyrir okkur Íslendingana voru þessir fossar nú bara svona lala. Þarna var hitinn farinn að velgja okkur ærlega undir uggum – rúmar 30° og fór hækkandi. Besti staðurinn til að vera á var eiginlega bíllinn með loftkælinguna á fullu gasi. Og í bílnum brunuðum við áfram þvert yfir að Port Alberni sem er lítill (20.000 manna) bær í botni 40 km langs fjarðar af vesturströndinni.  Mjög orginal bær með mikinn sjarma.

Byrjuðum á upplýsingamiðstöðinni þar sem við fengjum ráðleggingar um hvað væri markvert að sjá. Þaðan var haldið niður á höfn, röltum um í hitasvækjunni, spjölluðum við kall sem var að reyna að veiða markíl á flugustöng án nokkurs árangurs og fengum og okkur svo Fish and chips. Hitinn var orðin kæfandi þarna þannig að við flúðum inní vita sem er opið safn. Þar hittum við fyrir flokk af allraþjóða kvikindum sem var í enskukennslu þarna ásamt kennara sínum, breskri konu sem búið hefur í Port Alberni í áratugi. Þegar sú breska áttaði sig á hvaðan við værum hefði hún ekki geta orðið meira undrandi þó við hefðum sagt henni að við værum frá tunglinu. Hún hóaði öllum hópnum saman og bað þau að giska á hvaðan við værum. Við vorum svona hálfpartinn eins og sýningadýr þarna en þetta var skemmtilegt, Indverjar, Mexíkóar og fólk hvaðanæva úr heiminum spurðu okkur spjörunum úr (samt ekki í orðsins fyllstu merkingu – þó það hefði reyndar verið ágætt – slíkur var hitinn – þ.e. hitinn úti en ekki í fólkinu...).

Sem sagt þarna var hitinn að nálgast 40 gráðurnar og við flúðum að vatni sem heitir Sproat. Þetta er nokkuð stórt vatn og er m.a. notað fyrir vatns-bombu-flugvélar sem taka upp vatn í risastóra geyma og míga þeim svo yfir skógarelda þegar þeir kvikna. Það var eins og að komast í himnaríki (ekki að við höfum svo sem mikla reynslu af þeim ágæta stað) að fara út í vatnið og synda þar um. Við gátum ekki hugsað okkur að vera á „fastalandinu“ og leigðum  okkur því 2ja manna opinn kajak sem við dóluðum okkur á í rúman klukkutíma eða þar til bátastrákurinn lokaði sjoppunni. Þá var klukkan orðin sex og sólin farin að kólna ögn.

Þá var komið að því að dóla sér heim á leið. Næsta stopp var Cathedral Grove þar sem eru sannkölluð risatré. Þau elstu eru um 800 ára gömul! Hæsta tréð (Douglas greni) er um 76 metrar á hæð (Hallgrímskirkjuturn er 74,5 metrar) og 9 metrar á breidd. Þessi tré geta orðið um 1000 ára gömul. Spurning um að heilsa uppá  það aftur eftir ca100 ár....

Síðasta stoppið var svo síðbúinn kvöldverður á Pizza Hut í Nanaimo. Keyrðum svo heim (116 km) í myrkrinu (allsstaðar mikið myrkur þar sem það er ekki verið að spreða í ljósastaura út og suður) og vorum komin heim rétt fyrir miðnætti. Afskaplega góður dagur (þrátt fyrir hitann) og margt að sjá, skoða og gera.
Horft yfir Saanich inlet frá Malahat fjalli sem er á milli Victoria og Nanaimo

Þessar sitjandi krákur við Parksville báru ekki merki þess að svelta

Þetta verk varð hlutskarpast í flokki einstaklinga

Við gáfum þessum atkvæði okkar

Þessir lentu í öðru sæti í liðakeppninni

Fríða við efri fossinn í Little Qualicum 

Líkur sækir líkan heim


Þetta vatn bjargaði lífi okkur þennan dag þar sem náðum að kæla okkur niður

Ásólfur að faðma gamla Dogglas grenið - hefur upplifað margt síðustu 800 árin

No comments:

Post a Comment