Saturday, 18 August 2012

14. ágúst (þriðjudagur)


Byrjuðum daginn á að hitta gönguhópinn hennar Gemmu.  Vorum með seinni skipunum þar sem þurfti að fylla á bílinn um morguninn. Carol (bakarinn) sat svo í okkar bíl svona til að getað vísað veginn ef við misstum af lestinni.  Ekið var að East Sooke Park sem er við ströndina á syðsta odda eyjarinnar.  17 manna hópur þennan daginn, gamlir kunningjar og líka fullt af fólki sem við höfðum ekki séð áður og gaman var að spjalla við.  Þarna var Ken, skoskur prófessor sem búið hefur hér í 3 ár. Bob sem er ljósmyndari og svo hjónin Larry og Carol (eða svo minnir okkur að þau heiti) sem voru einnig nýflutt hingað eftir að hafa búið í 26 ár í Yellow Knive stærstu borgarinnar í norðurfylkinu.

Margt skemmtilegt að sjá í göngunni m.a. frumbyggja graffiti á klettóttri ströndinni (Petroglyphs). Áð var við fallega litla klettavík og eins og alltaf þá var Carol með nýbakaða köku fyrir allan mannskapinn.  Loks var gengið í gegnum skóginn að bílastæðunum. Virkilega skemmtilega ganga sem tók 3,5 – 4 klst. Yellow Knive hjónin buðu okkur heim að skoða nýja búgarðinn þeirra sem er við 4060 Granville Avenue í Sanich (rétt norðan Victoria).  Allt hið huggulegasta þar þó búskapurinn væri ekki mikill, nokkur ávaxtatré og grænmetisrækt sem fær lítin frið fyrir dádýrum.  Eftir að hafa svalað þorstanum með bjór og ávaxtasafa fengum við leiðsögn um landareignina (5 ekrur) og tíndum villt brómber sem við tókum með okkur heim.

Um kvöldið elduðum við krækling í fyrsta skipti. Suðum hann í hvítvíni, grænmeti og sítrónusmjöri. Tókst virkilega vel, herramanns matur sem hefði hæft hvaða kóngi (eða forseta með kóngablæti). Í eftirmat var svo vanilluís með brómberjunum góðu. Áður en dagurinn var allur þurfti að ganga frá ruslinu, fara með tunnurnar (almenn og endurvinnslu) út að götu svo þær væru tæmdar.

Eldgamalt veggjakrot
Skundað um skóginn

Lúin bein hvíld í víkinni góðu

Ljósmyndarinn Bob heimtaði að taka mynd af okkur hjónakornunum

Kræklingur, franskar og mæjónes - namminamm

Nýtínd brómber, líka namminamm

No comments:

Post a Comment