Sunday, 19 August 2012

17. ágúst (föstudagur)


Nú var sofið út enda kominn tími til. Dagurinn tekinn afskaplega rólega, sátum í sólinni útí garði og lásum. Um miðdegið var ákveðið að þetta hangs gengi ekki lengur og gengum við með teppi og bækur að bátahöfninni hér við Oak Bay. Þar fundum við bekk og grasflöt við litla vík, lögðumst í skugga eikarinnar tókum upp bækur og sofnuðum  Eftir góðan bútíblund og smá lestur fórum við á bátakaffihúsið og fengum okkur hressingu og spiluðum Ólsen, aldrei þessu vant.

Loks gengum við eftir öllum flotbryggjunum og skoðuðum skútur. Þar hittum við fjörgamlan kall sem var nýfluttur til Victoria frá Montreal og sagði okkur sögur frá því þegar hann og konan hans heitin sigldu til Evrópu og seglskútu og dvöldu þar í 3 ár. Þarna var einnig skútusala og því auðvelt að láta sig dreyma þar sem skútuprís hér er ekkert svo ýkja hár.

Eftir þrammið vorum við orðin svöng fyrir alvöru, skelltum okkur því á ressann sem Helga Kristín hafði mælt með og er á hæðinni fyrir ofan kaffihúsið sem við vorum á fyrr um daginn. Skemmtilegur veitingarstaður með gott útsýni yfir skemmtibátahöfnina. Við fengum ekkert borð en þar sem við vorum ákveðin í að fá okkur sushi var okkur plantað við aðalbarinn, á besta stað með útsýni bæði yfir allan salinn og höfnina. Þegar við vorum að rýna í matseðillin tókum við eftir því að fólkið við hliðina á okkur var að borða súsí. Spurðum hvort þau hefðu verið ánægð með sína pöntun og fengum svona líka fínar móttökur. Fyrst traustar ráðleggingar um hvað við ættum að panta og loks heimboð í grillpartý næsta kvöld.  Svona eru nú dagarnir huggulegir í útlandinu. Þjóninn okkar var líka alveg afbragð og kynnti okkur fyrir hérlendu viskí og gini frá Victoria.

Frá víkinni þar sem við sofnuðum

Sofnað út frá lestri um dönsk sveitarstjórnarmál

Spegilmynd af okkur á kaffihúsinu

Margar skútur og aðrir bátar. Um okkur fór fiðringur...

No comments:

Post a Comment