Monday, 20 August 2012

19. ágúst (sunnudagur)


Við áttum stefnumót við Gwen, Gemmu og Donnu á bílastæðum við Gowlland Tod Provincial Park og löng fjallganga framundan. Gwen og Donna eru að koma sér í gönguform þar sem þær eru að fara í langan túr sem hefst um næstu helgi.  Smá stress að finna þann stað sem ákveðið var að hittast á en fyrir rest römbuðum við á hann.

Gwen stýrði gönguninni, arkað var uppá Jocilyn Peak og Holmes Peak sem skv. áætlun átti að taka 6 klst. Fínasta gönguveður í upphafi, rúmlega 20° og skýjað að mestu. Þegar við vorum hálfnuð á fyrsta tindinn mættum við manni sem varaði okkur við skógarmítli (eða tick í munni hérlendra) sem hann sagði vera öllu seinna á ferðinni en vanalega. Við fengum ýmsar sögur um skógarmítla og hvernig best væri að losna við þá næðu þeir að grafa sig í húðina, en hætta er á að maður skilji hluta þeirra eftir reyni maður að kroppa þá af.  Pabbi Gwen hafði notað sígarettuglóð og borið upp af gumpnum á þeim og væru þeir þá snöggir að skjóta hausnum út.  Við vorum öll hálf hysterísk enda kom á daginn þegar við stoppuð á tindinum að hvert og eitt okkar var að minnsta kosti með einn mítill skríðandi á hálsi eða haus.

Jæja útsýnið fá Jocilyn tindi og Holmes tindi er mjög huggulegt. Maður verður náttúrulega áægilega ánægður loksins þegar færi gefst á útsýni.  Saanich fjörðurinn beint fyrir neðan, hæðirnar umhverfis Victoriu í suðri og svo hærri fjöll í norðri.  Þegar þarna var komið sögu var maður eiginlega feginn að geta gengið sem mest í skugga trjánna, himininn búinn að hreinsa sig og sólinn að steikja okkur. Á niðurleiðinni var farinn önnur slóð og gengið í gegnum Creepy cops (Gwen sagði að cops þýddu tré) en það er smá svæði með hinum skuggalegasta skógi. Allir komust þó heilir niður en gangan tók þó aðeins lengri tíma en reiknað var með eða 7 klst.
Það eru ekki öll tré risa tré.

Við Arbutus tré (sígrænt tré sem fellir börkinn á hverju ári).
Gengið í gegnum "creepy cops".

18. ágúst (laugardagur)



Byrjuðum daginn snemma þar sem við vildum sjá Dragon BoatFestival við aðalhöfnina. Höfðum fengið þessar fínu leiðbeiningar kvöldið áður hjá nýju vinum okkar hvar best væri að sjá keppnina án þess að vera í aðal kösinni.  Á leiðinn niður að höfn rákumst við á skemmtilegan hverfismarkað við Moss streat á skólalóð og næsta umhverfi.  Við komum okkur fyrir þar sem bátarnir eru ræstir og fylgdumst með nokkrum umferðum og tókum myndir. Greinilega hörku keppni þar sem laugardagurinn var undirlagður fyrir undanrásir (alls 80 lið) og úrslitin sjálf svo á sunnudeginum. Drekabátar eru langir kanóar með 20 ræðara – 2 á hverri þóftu, 1 á stýri og einn hvetjara sem situr með trommu í stefni.  Stefnið sjálft er svo skreytt með drekahöfðum í mismunandi litum. 5 bátar reru í hverri umferð og var heldur betur handagangur í öskjunni þegar ræst var.

Næsta stopp var ferjuhöfnin þar sem við náðum í miðana okkar til Seattle. Svo var hjólað í Kínahverfið og borðað Dim Sum á veitingastaðnum DonMee, sem ku vera sá besti á sínu sviði – amk hér á Vancourver Island. Mikil upplifun þar sem kínakonur röltu um með vagna með mismunandi smáréttum og buðu manni að velja. Stimpluðu svo á miða sem sýndi verð þegar eitthvað varðfyrir valinu af vagninum þeirra. Það voru örlitlir samskiptaörðuleikar þarna þar sem þær töluðu ekki mikla ensku og við nánast enga kínversku.  Ein ætlaði að hjóla í Hrafnkel þegar hann potaði með prjóni í einn réttinn á vagninum, við þorðum eiginlega ekki annað en að velja 2 rétti af henni svona til að blíðka hana örlítið. Við vissum því eiginlega ekkert hvað við vorum að velja og borða en ljúffengt var það og eiginlega ódýrasti hádegisverður sem við höfum snætt hér, eða um 3000 íslenskra krónur.

Eftir matinn var Hrafnkell staðráðin í að láta kínakall klippa sig, hann hafði áður sigtað út kínverska rakarastofu í þröngri göngugötu og stormaði nú þangað með Fríðu sína í eftirdragi.  Hrafnkell fékk strax lausan stól hjá afar smávöxnum og öldnum Kínverja. Sá talaði enga ensku utan OK. Samskipti þeirra voru því bros, bendingar og OK – kom svona ljómandi fínt klipptur út þráttfyrir að Kínverjinn hafi varla náð upp í hvirfilinn á honum.

Þá var það að koma sér heim og gera okkur klár fyrir garðveisluna hjá fólkinu sem við hittum á veitingastaðnum kvöldið áður. Mættum þar örlítið of seint um kl 18 og húsráðendur og þeirra gestir voru eiginlega búin að afskrifa okkur. Okkur var tekið eins og týnda syninum, boðið uppá dýrindis kræsingar og við spurð spjörunum úr.  Úr varð þetta afbragðs kvöld, með góðum mat, víni og félagsskap. Gestgjafarnir heita John (efnafræðingur) og Maggie Owen (listakona). Þarna var líka Elaine sem býr í úthverfi Manchester og er æskuvinkona Johns. Og svo tvenn önnur hjón úr nágrenninu. Annar karlinn var slökkviliðsstjóri í Oak Bay og hinn prestur...en samt ekki prestur... Borðað var útí garði sem Maggie hefur lagt mikla alúð í en þegar skyggja tók færðum við okkur inn í hús. Við hjóluðum svo heim uppúr kl. 22.00.
Einn riðillinn nýlagður af stað

Með svona bát munum við sigla yfir til Seattle

Loksins sem við komumst í Dim Sum. Afbragð alveg hreint.


Stóri Ásólfur og litli kínakarlinn.

Nýklipptur og fínn í einni þrengstu götu í heimi.

Íbygginn, ungur maður á leið í boð til ókunnugra.


Sunday, 19 August 2012

17. ágúst (föstudagur)


Nú var sofið út enda kominn tími til. Dagurinn tekinn afskaplega rólega, sátum í sólinni útí garði og lásum. Um miðdegið var ákveðið að þetta hangs gengi ekki lengur og gengum við með teppi og bækur að bátahöfninni hér við Oak Bay. Þar fundum við bekk og grasflöt við litla vík, lögðumst í skugga eikarinnar tókum upp bækur og sofnuðum  Eftir góðan bútíblund og smá lestur fórum við á bátakaffihúsið og fengum okkur hressingu og spiluðum Ólsen, aldrei þessu vant.

Loks gengum við eftir öllum flotbryggjunum og skoðuðum skútur. Þar hittum við fjörgamlan kall sem var nýfluttur til Victoria frá Montreal og sagði okkur sögur frá því þegar hann og konan hans heitin sigldu til Evrópu og seglskútu og dvöldu þar í 3 ár. Þarna var einnig skútusala og því auðvelt að láta sig dreyma þar sem skútuprís hér er ekkert svo ýkja hár.

Eftir þrammið vorum við orðin svöng fyrir alvöru, skelltum okkur því á ressann sem Helga Kristín hafði mælt með og er á hæðinni fyrir ofan kaffihúsið sem við vorum á fyrr um daginn. Skemmtilegur veitingarstaður með gott útsýni yfir skemmtibátahöfnina. Við fengum ekkert borð en þar sem við vorum ákveðin í að fá okkur sushi var okkur plantað við aðalbarinn, á besta stað með útsýni bæði yfir allan salinn og höfnina. Þegar við vorum að rýna í matseðillin tókum við eftir því að fólkið við hliðina á okkur var að borða súsí. Spurðum hvort þau hefðu verið ánægð með sína pöntun og fengum svona líka fínar móttökur. Fyrst traustar ráðleggingar um hvað við ættum að panta og loks heimboð í grillpartý næsta kvöld.  Svona eru nú dagarnir huggulegir í útlandinu. Þjóninn okkar var líka alveg afbragð og kynnti okkur fyrir hérlendu viskí og gini frá Victoria.

Frá víkinni þar sem við sofnuðum

Sofnað út frá lestri um dönsk sveitarstjórnarmál

Spegilmynd af okkur á kaffihúsinu

Margar skútur og aðrir bátar. Um okkur fór fiðringur...

16. ágúst (fimmtudagur)


Vöknuðum eldsnemma, eða kl 6.00. Útbjuggum nesti og vorum lögð af stað í ferðalag kl 7.00. Fyrsti áfangastaður var Parkville, lítill strandbær sem er um 150 km norður af Victoria. Borðuðum nestið okkar á dásamlegri strönd með miklum sandbreiðum, enda hafði hafið fjarað langt út. Virkilega falleg fjallasýn yfir á kanadísku Klettafjöllin. Röltum aðeins um miðbæinn, fundum kaffihús sem bauð uppá fínasta kaffi. Þaðan lá leiðin niður á aðra strönd þar sem háð var alvöru sandskúlptúr keppni sem fer fram á hverju ári.  Vá!  Ótrúlega flottir skúlptúrar sem sýndir voru á afgirtu svæði. Borguðum lítilræði inn og ræddum við félagsmenn í Lions og Lionessum sem voru þarna í sjálfboðavinnu að rukka inn þennan dag og sjá til að allt færi vel fram. Innkoman fer annars vegar í verðlaunafé og hins vegar í endurbætur á leikaðstöðu fyrir börn á ströndinni. Mun færri fá að spreyta sig en vilja og allt prófessjónal skúlptúristar. Hver keppandi (einstaklingar og lið) getur notað 24 klst á 3 sólarhringum til að móta verkin sín. Sunnudaginn 19. ágúst verða sigurvegarar krýndir. Skemmtilegt konsept sem gaman væri að sjá á Ylströndinni í Reykjavík.

Áfram var haldið, nú frá ströndinni og inn til landsins. Næsta stopp var við Little Qualicum Falls Provincial Park þar sem við tókum stuttan göngutúr og skoðuðum tvo fossa. Skemmtileg á og gil en.... fyrir okkur Íslendingana voru þessir fossar nú bara svona lala. Þarna var hitinn farinn að velgja okkur ærlega undir uggum – rúmar 30° og fór hækkandi. Besti staðurinn til að vera á var eiginlega bíllinn með loftkælinguna á fullu gasi. Og í bílnum brunuðum við áfram þvert yfir að Port Alberni sem er lítill (20.000 manna) bær í botni 40 km langs fjarðar af vesturströndinni.  Mjög orginal bær með mikinn sjarma.

Byrjuðum á upplýsingamiðstöðinni þar sem við fengjum ráðleggingar um hvað væri markvert að sjá. Þaðan var haldið niður á höfn, röltum um í hitasvækjunni, spjölluðum við kall sem var að reyna að veiða markíl á flugustöng án nokkurs árangurs og fengum og okkur svo Fish and chips. Hitinn var orðin kæfandi þarna þannig að við flúðum inní vita sem er opið safn. Þar hittum við fyrir flokk af allraþjóða kvikindum sem var í enskukennslu þarna ásamt kennara sínum, breskri konu sem búið hefur í Port Alberni í áratugi. Þegar sú breska áttaði sig á hvaðan við værum hefði hún ekki geta orðið meira undrandi þó við hefðum sagt henni að við værum frá tunglinu. Hún hóaði öllum hópnum saman og bað þau að giska á hvaðan við værum. Við vorum svona hálfpartinn eins og sýningadýr þarna en þetta var skemmtilegt, Indverjar, Mexíkóar og fólk hvaðanæva úr heiminum spurðu okkur spjörunum úr (samt ekki í orðsins fyllstu merkingu – þó það hefði reyndar verið ágætt – slíkur var hitinn – þ.e. hitinn úti en ekki í fólkinu...).

Sem sagt þarna var hitinn að nálgast 40 gráðurnar og við flúðum að vatni sem heitir Sproat. Þetta er nokkuð stórt vatn og er m.a. notað fyrir vatns-bombu-flugvélar sem taka upp vatn í risastóra geyma og míga þeim svo yfir skógarelda þegar þeir kvikna. Það var eins og að komast í himnaríki (ekki að við höfum svo sem mikla reynslu af þeim ágæta stað) að fara út í vatnið og synda þar um. Við gátum ekki hugsað okkur að vera á „fastalandinu“ og leigðum  okkur því 2ja manna opinn kajak sem við dóluðum okkur á í rúman klukkutíma eða þar til bátastrákurinn lokaði sjoppunni. Þá var klukkan orðin sex og sólin farin að kólna ögn.

Þá var komið að því að dóla sér heim á leið. Næsta stopp var Cathedral Grove þar sem eru sannkölluð risatré. Þau elstu eru um 800 ára gömul! Hæsta tréð (Douglas greni) er um 76 metrar á hæð (Hallgrímskirkjuturn er 74,5 metrar) og 9 metrar á breidd. Þessi tré geta orðið um 1000 ára gömul. Spurning um að heilsa uppá  það aftur eftir ca100 ár....

Síðasta stoppið var svo síðbúinn kvöldverður á Pizza Hut í Nanaimo. Keyrðum svo heim (116 km) í myrkrinu (allsstaðar mikið myrkur þar sem það er ekki verið að spreða í ljósastaura út og suður) og vorum komin heim rétt fyrir miðnætti. Afskaplega góður dagur (þrátt fyrir hitann) og margt að sjá, skoða og gera.
Horft yfir Saanich inlet frá Malahat fjalli sem er á milli Victoria og Nanaimo

Þessar sitjandi krákur við Parksville báru ekki merki þess að svelta

Þetta verk varð hlutskarpast í flokki einstaklinga

Við gáfum þessum atkvæði okkar

Þessir lentu í öðru sæti í liðakeppninni

Fríða við efri fossinn í Little Qualicum 

Líkur sækir líkan heim


Þetta vatn bjargaði lífi okkur þennan dag þar sem náðum að kæla okkur niður

Ásólfur að faðma gamla Dogglas grenið - hefur upplifað margt síðustu 800 árin

Saturday, 18 August 2012

15. ágúst (miðvikudagur)


Sól og blíða þennan daginn sem aðra. Dagurinn fór rólega af stað, snörluðum morgunmat og lásum í sólinni útí garði. Hjóluðum svo litlu tyrknesku búðina í Oak Bay miðbænum og keyptum okkur samlokur í hádegisverð sem við fórum með á ströndina okkar. Í þetta skiptið var um alvöru strandferð að ræða, legið á teppi í sólinni og lesið.  Hrafnkell anginn átti svolítið erfitt með sig en náði njálgnum úr sér með því að synda í köldu Kyrrahafinu.

Rétt fyrir kl. 3 var ströndin kvödd og hjólað aftur í Oak Bay miðbæinn þar sem hverfismarkaður var að byrja.  Aðalgötunni er þá lokað milli 3 og 9 og á götunni spretta upp sölutjöld með allskonar varning. Fríða keypti ársbyrgðir af Holy Crap morgunkorni og dós af engiferkryddi.  Lítil hljómsveit skemmti gestum með spileríi. Með eftirgrennslan fundum við út að þetta var fjölskyldubissness. Þrjú ensk systkini og foreldra þeirra sem fluttu hingað fyrir nokkrum árum.  Bandið ber fjölskyldunafnið The O‘Briens. Keyptum diskinn þeirra sem er bara alveg hreint ágætur.

Ákváðum að renna heim og skola saltið af Ásólfi og fá okkur hressingu og kíkja svo á markaðinn seinna um kvöldið. Grilluðum kjúklingabringu og risa zucchini sem Mary gaf okkur – borðuðum útí í garði.  Þegar við snerum aftur á markaðinn var verið að pakka saman og því lítið að sjá. Kíktum við á hverfispöbbinn sem var ansi þétt setinn áður en haldið var heim í háttinn.
Letilíf á ströndinni

Engin ísbjörn, bara Ásólfur á sundi og Mt. Baker í baksýn

Írska fjöskyldubandið (í baksýn) á markaðnum

Það varð náttúrulega að smakka á kræsingunum

14. ágúst (þriðjudagur)


Byrjuðum daginn á að hitta gönguhópinn hennar Gemmu.  Vorum með seinni skipunum þar sem þurfti að fylla á bílinn um morguninn. Carol (bakarinn) sat svo í okkar bíl svona til að getað vísað veginn ef við misstum af lestinni.  Ekið var að East Sooke Park sem er við ströndina á syðsta odda eyjarinnar.  17 manna hópur þennan daginn, gamlir kunningjar og líka fullt af fólki sem við höfðum ekki séð áður og gaman var að spjalla við.  Þarna var Ken, skoskur prófessor sem búið hefur hér í 3 ár. Bob sem er ljósmyndari og svo hjónin Larry og Carol (eða svo minnir okkur að þau heiti) sem voru einnig nýflutt hingað eftir að hafa búið í 26 ár í Yellow Knive stærstu borgarinnar í norðurfylkinu.

Margt skemmtilegt að sjá í göngunni m.a. frumbyggja graffiti á klettóttri ströndinni (Petroglyphs). Áð var við fallega litla klettavík og eins og alltaf þá var Carol með nýbakaða köku fyrir allan mannskapinn.  Loks var gengið í gegnum skóginn að bílastæðunum. Virkilega skemmtilega ganga sem tók 3,5 – 4 klst. Yellow Knive hjónin buðu okkur heim að skoða nýja búgarðinn þeirra sem er við 4060 Granville Avenue í Sanich (rétt norðan Victoria).  Allt hið huggulegasta þar þó búskapurinn væri ekki mikill, nokkur ávaxtatré og grænmetisrækt sem fær lítin frið fyrir dádýrum.  Eftir að hafa svalað þorstanum með bjór og ávaxtasafa fengum við leiðsögn um landareignina (5 ekrur) og tíndum villt brómber sem við tókum með okkur heim.

Um kvöldið elduðum við krækling í fyrsta skipti. Suðum hann í hvítvíni, grænmeti og sítrónusmjöri. Tókst virkilega vel, herramanns matur sem hefði hæft hvaða kóngi (eða forseta með kóngablæti). Í eftirmat var svo vanilluís með brómberjunum góðu. Áður en dagurinn var allur þurfti að ganga frá ruslinu, fara með tunnurnar (almenn og endurvinnslu) út að götu svo þær væru tæmdar.

Eldgamalt veggjakrot
Skundað um skóginn

Lúin bein hvíld í víkinni góðu

Ljósmyndarinn Bob heimtaði að taka mynd af okkur hjónakornunum

Kræklingur, franskar og mæjónes - namminamm

Nýtínd brómber, líka namminamm

Wednesday, 15 August 2012

13. ágúst (mánudagur)


Letidagur. Sátum úti í garði og lásum og fórum loksins (!!!) á strönd til að liggja og lesa. Ströndin næst okkur, Willow beach, varð fyrir valinu en það er næs sandströnd. Við lágum þar og lásum í góðan klukkutíma. Það skal tekið fram að þetta var í fyrsta skipti sem farið er á stöndina til að ástunda letilíf. Bæði nutu en bara annað viðurkennir það. Um kvöldið voru grillaðar kalkúnalundir og grænmeti ala Ásólfur. Afar ljúffengt.
Legið í sólbaði.

Setið í sólbaði.

Willow beach - erum ca 5 mín að hjóla þangað.

Grillmeistarinn að störfum.

Matgæðingur að störfum.

12. ágúst (sunnudagur)


Sofið var út þennan sunnudaginn eftir langan laugardag.  Ákváðum að þiggja heimboð Gwen og hitta hana og nokkra úr gönguklúbbnum síðdegis. Gwen býr aðeins norðan við Victoria, rétt við Sidney þar sem ferjan frá Vancouver leggur að bryggju.  Dagur tekin rólega framan af, setið í sólinni útí garði og lesið milli þess sem farið var inn að ná sér í hressingu og kælingu um leið. Um miðjan dag ókum við sem leið lá á 738 Lands End Rd, Sidney, BC V8L 5K9.

Þegar við vorum að silast í gegnum Oak Bay varð á vegi okkar dádýr sem trítlaði yfir götuna og inn í næsta botnlanga. Dádýr ku víst vera versti óvinur garðeigenda hér um slóðir, sérlega sólgið í blómplöntur.

Fengum höfðinglegar móttökur hjá Gwen sem hafði lagað hvern dýrindis smáréttinn á fætur öðrum. Gwen býr í frábæru húsi með lóð niður í fjöru. Frábært útsýni yfir að Salt Spring Island og sjóinn. Þarna fyrir hittum við hjón, danska konu og þýskan kall, þrjár kellur sem allar eru fæddar á Bretlandseyjum og loks Sam, son Gwen ásamst sinni spúsu. Skemmtilegar umræður voru á svölunum og eins og ævinlega fólk mjög áhugasamt um Ísland og íslendinga. Sam og frú voru sérstakir aðdáendur hins sænska Wallanders, náðu að tengja það með einhverjum hætti við Ísland og kölluðu Hrafnkel Kurt.

Eftir að hafa eytt góðri stund í garðinum hjá Gwen við varðeld, blaður og ákváðum við að þræða sjávarsíðuna heim í stað þess að taka hraðbrautina. Sáum ekki eftir því, leiðin var mjög falleg og við fengum þetta líka fína sólsetur.

Dádýrshind á harðahlaupum.

Sólarlagið við Saanich inlet.

Tuesday, 14 August 2012

11. ágúst (laugardagur)


Dagurinn tekinn snemma þar sem planið var að hitta Mary og nokkra göngugarpa við Sooke Potholes og finna réttu leiðina að vatninu. Eftir að hafa stúderað leiðina á google maps og gert leiðarlýsingu var brunað úr bænum og auðvitað vorum við fyrst á svæðið.  Ekki leið á löngu þar til aðrir komu á svæðið, en þarna hittum við Ryan (sem Hrafnkell kallar alltaf Fred) röskan göngugarp með gps, Larry kana sem býr í Arizona á veturnar en í Victoria á sumrin og loks hin norsk ættaða Peter sem Fríða stökk á og faðmaði (fór aldrei þessu vant mannavillt og hélt að þetta væri Gerry).  Peter kallinn varð hálf ruglaður á þessum móttökum og talaði við okkur á norsku það sem eftir lifði dags...

Gangan var nú léttari en fyrri daginn þar sem hitinn var ekki nema 23° eða svo.  Fundum rétta slóðann enn könnuðum þann sem við römbuðum á áður til hlítar. Við erum eiginlega að verða sérfræðingar á þessum slóðum.  Eftir röska tveggja tíma göngu var það við Grassy Lake – ljómandi huggulegt fjallavant þar sem vatnaliljurnar fögnuðu okkur með blómskrúð og silungurinn heilsaði með stökki.  Við vatnið rákumst við á vinkonu okkar hana Gwen og aðra göngugarpa sem höfðu valið einföldu leiðina að vatninu. Gwen bauð okkur heim til sín í garðveislu daginn eftir.
Í göngunni rákumst við á snák, Mary steig á vespubú og Hrafnkell var stunginn í hásinina af vespu. Auk þessa var mikið spáð og spekúlerað í þann dýraskít sem á vegi okkar varð. Ryan (eða Fred) greindi skítinn eftir stærð, lögun, þéttleika og innihaldi.  Mikil fræði á bak við þetta en við rákumst á skít eftir úlfa og birni.

Að göngunni lokinni var ákváðum við að fara í lengri bíltúr eftir ráðleggingar Mary.  Ókum eftir suðvesturströndinni sem er gríðarlega falleg. Keyptum nesti í næsta kaupfélagi og fengum okkur magafylli á rekaviðardrumbi við ströndina áður en ferðalagði hófst fyrir alvöru. Við stoppuðum svo fyrst á Kínaströndinni sem er öll hin huggulegasta, þar var fólk að busla og sóla sig.  Þar sem ferðalagið var rétt að byrja fékk Fríða ekki að dvelja lengi á þessari strönd (samt alveg í ca 5 mínútur).  Keyrðu svo eins langt og þjóðvegurinn náði að Juan De Fuca Provincial Park. Þegar þangað var komið beið okkur þokumistur og heldur dimmdi yfir svip frúarinnar við þá sjón (enda var búið að lofa henni kósíheit á strönd).  Við gengum engu að síður skemmtilegan hring þarna um dimman skóginn, vogskorna og klettótta ströndina.  Við salernin voru leiðbeiningar um hvernig eigi að bera sig mæti maður birni eða fjallaljóni. Mary hafði frætt okkur á að þarna væru helstu líkurnar að sjá birni.  Röltandi í mistrinu, heyrandi alls kyns brak í skóginum var okkur eiginlega hætt að lítast almennilega á blikuna og vorum hálf feginn að komast óétin aftur í bílinn. Enda vorum við ekki búinn að aka lengi þegar við sáum tvo birni í ætisleit.

Nú lá leiðinn yfir fjöllin að Cowichian Lake sem er virkilega skemmtileg leið um ótrúlega mikla skóga. Ekið var sem leið lá í Duncan þar sem við fundum loks stað til að næra okkur á Doogie Family Resturant.  Dæmigerð vegasjoppa og maturinn svona lala.  Auðvitað vorum við spurð hvaðan við værum og eftir að hafa gert því skil komu hjónin á næsta borði til okkar og sögðu tengdason sinn vera af íslenskum ættum. Aðeins var grínast með íslensku nöfnin og hversu miklir tungubrjótar þau eru hér í Kananda eða eins og frúin sagði „My doughter went from a nice and simple Smith to Bergþórsson."

Á leiðinni heim frá Duncan sáum við glampa af flugeldasýningu og stjörnuhrap en ekkert tungl. Erum helst á því að tunglið hafi yfirgefið okkur.

Litast um á leiti

Við enda villuslóðans var minningarskjöldur


Blómarós og blómin við Grassy Lake

Hrafnkell og dvergarnir

China beach, sól og gullnir sandar

Þokuströndin við Juan De Fuca
Ekki hægt að segja að við höfum ekki verið vöruð við

Spúkí skógur á bjarnarslóðum


Fríða fann flóttaleiðina

Bangsi beið okkar svo á gresjunni (klikka á myndina til að sjá betur)

10. ágúst (föstudagur)

Þessi dagur var skrítinn. Fullur af óhöppum en líka af höppum og allt endaði vel. Við vöknuðum og gerðum okkur klár til að fara í heljarinnar hjólatúr, með nesti og alles. Til stóð að hjóla niður í bæ og taka svo strætó (með hjólin) ca 30 km út fyrir Victoria og hjóla heim. Hjólaleið sem heitir Galloping Goose trail. En nei... þau fínu áform urðu að engu. En við hjóluðum þó heilmikið þennan dag...

Þannig er mál með vexti að um leið og hin lyklapassasama Hólmfríður lokaði útihurðinni þá uppgötvaði hún að allir lyklar voru inni í hinu rammlæsta húsi. Líka lyklarnir af bílnum. En við höfðum hjólin og vísakort. En reynum að gera laaaaaanga sögu ögn styttri.... Þetta leit alls ekki vel út og við vorum farin að undirbúa okkur til að klifra upp á svalirnar og sofa þar. En heppnin lék við okkur eins og svo oft áður, þó hún hafi reynt ögn á þolrifin. Eina vonin okkar um að komast inn var að ná í konuna sem þrífur húsið og hefur auka lykla. Við höfðum fengið símanúmerið hennar ef eitthvað svona myndi koma uppá – en það var vitaskuld vel geymt inni í húsinu. Við reyndum að ná í húsráðendur (og sem betur fer var klukkan bara seinnipartur á Íslandi) en slökkt var á símanum – en við fengum mikla hjálp frá Unni, sameiginlegri vinkonu, til að hafa uppi á þeim. Í millitíðinni fengum við gamlar konur í bókabúðinni til liðs við okkur og þær hjálpuðu okkur við að leita í rafrænum og órafrænum símaskrám  að skrúbbunni, Samönthu. Það kom svo í ljós að sú ágæta kona á ekki gemsa og það svaraði ekki heima hjá henni. Við hjóluðum því heim til hennar en enginn heima. Nágranni hennar vissi ekki hvort hún hefði farið í burtu um helgina. Skildum eftir miða og bönkuðum uppá á klukkutímafresti. Þess á milli hjóluðum við um, sátum á veitingahúsum, settumst á bekki og spiluðum og létum okkur leiðast. Þegar klukkan var að verða sex var farið að kólna verulega og búðir að fara að loka fyrir nóttina. Þar sem við sáum allt eins frammá að sofa úti og Hólmfríður aðeins á stuttbuxum þá var drifið í að kaupa göngubuxur á stelpuna svo henni yrði ekki kalt og yrði síður étin af óargapöddum. Og viti menn – næst þegar við bönkuðum uppá hjá Samönthu þá var hún akkúrat að koma út úr strætó. Hallelúja! Það urðu miklir fagnaðarfundir (af okkar hálfu). Og heim komumst við!

EN... þá tók ekki mikið betra við. Það var miði á bílrúðunni um það að einhver frúin hefði bakkað á bílinn okkar. En enn og aftur fylgdi heppnin okkur. Það hefði verið ömurlegt ef hún hefði ekki verið svona heiðarleg og skilið eftir miða með nafni og símanúmeri. Skemmdin er heldur ekki svo mikil. Sem betur fer. Svona fór sem sagt um hjólaferð þá og það voru tvær afar þakklátar manneskjur sem lögðust í rúmið þetta kvöldið, í stað þess að sofa úti.

Eftir eina af árangurslausu ferðum til Samönthu.

Heimilislausafólkið drap tíminn með því að spila.

"Örlagavaldurinn" Spirulina... Eftir að við fundum hana fór allt í rétta átt.